30 Apríl 2018 13:44
Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. apríl.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 22. apríl. Kl. 11.20 varð aftanákeyrsla á Sæbraut við Klettagarða á leið til vesturs. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.25 féll fimm ára drengur af hjóli sínu á Vatnsveituvegi við Starrahóla. Hann var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 23. apríl. Kl. 15.57 varð stúlka, sem hljóp áleiðis yfir Eyrarland við Bústaðaveg, fyrir bifreið, sem var ekið suður götuna. Hún var flutt á slysadeild. Kl. 16.55 féll ökumaður af vespu, á leið eftir göngustíg frá Mjódd neðan við Krossalind, austan Reykjanesbrautar. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.59 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Miklubraut til vesturs austan Grensásvegar. Þrír ökumenn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 21.43 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur vinstri akrein Bústaðavegar og beygt áleiðis yfir á hægri akreinina skammt vestan afreinar að Reykjanesbraut, og bifreið, sem var ekið austur hægri akreinina. Við áreksturinn valt síðarnefnda bifreiðin yfir á hliðina. Annar ökumannanna leitaði sér aðhlynningar á slysadeild í framhaldinu.
Miðvikudaginn 25. apríl kl. 17.12 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á afrein Vesturlandsvegar til vesturs við Höfðabakka. Einn ökumannanna fór á slysadeild í framhaldinu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 27. apríl. Kl. 10.59 varð árekstur með bifhjóli, sem var ekið austur Krókháls, og bifreið, sem var ekið frá bifreiðastæði við hús nr. 6, út á götuna og í veg fyrir hjólið. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.22 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut, á leið til austurs, vestan Jaðarsels. Einn ökumannanna, ófrísk kona, ætlaði að leita sér aðstoðar á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 28. apríl. Kl. 11.46 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut, á leið til austurs, gegnt Tjarnarvöllum, eftir að ökumaður hafði stöðvað við brún brautarinnar og stigið út með það fyrir augum að fjarlægja bolta af henni. Hann, ásamt tveimur öðrum ökumönnum, var fluttur á slysadeild. Kl. 15.12 varð stúlka á reiðhjóli, á leið austur yfir Langholtsveg norðan Gnoðarvogs, fyrir bifreið, sem var ekið suður veginn. Móðir stúlkunnar fór með hana á slysadeild til aðhlynningar. Og kl. 21.24 féll drengur af reiðhjóli á gangstíg við Austurberg nálægt Fjölbrautaskólanum. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða, bifreiða eða reiðhjóla.