24 Mars 2018 11:00
Því miður tekst ekki alltaf að koma hlutum sem rata á borð lögreglu aftur í réttar hendur og fyrir því geta verið margar ástæður. Yfirleitt gengur það þó ágætlega, þótt vissulega geti það stundum tekið langan tíma. Dæmi um það er erfðagripur sem barst lögreglu nýverið, en í því tilviki var reyndar ekki við hana að sakast. Þannig var að ónefndur maður kom með hlut á lögreglustöðina í Kópavogi og sagði hann vera gamalt þýfi. Hluturinn hafði komið í gegnum bréfalúgu einhverjum mánuðum fyrr hjá fyrirtæki sem maðurinn vann hjá. „Sendingin“ fór beinustu leið í skrifborðsskúffuna og gleymdist þar uns kom að tiltektardegi alllöngu síðar. Þá tók maðurinn hlutinn, fór á lögreglustöðina og hreyfing komst á málið.
Hluturinn reyndist vera gull vasaúr, en með því fylgdi bréf þar sem fram kom að úrinu hefði verið stolið í innbroti á heimili konu, eða ekkju, eiganda fyrirtækis í Kópavogi. Liðinn var langur tími frá innbrotinu og ljóst að ekki yrði auðvelt að koma því aftur til réttmætra eigenda. Lögreglumenn eru hins vegar úrræðagóðir og það sannaðist hér sem oftar. Reynt var hafa uppi á eiganda umrædds fyrirtækis, en sá reyndist látinn. Í minningargrein um hann var að finna nafn eiginkonu hans og barna, en eitt þeirra staðfesti að fyrirtækið hefði verið í eigu fjölskyldunnar en það hefði verið selt fyrir löngu síðan. Spurningum lögreglumannsins, sem fékk málið til úrlausnar, um innbrot á heimili móður þeirra var svarað þannig að ekkert slíkt hefði átt sér stað.
Áfram var haldið og kannað með eigendur, sem höfðu átt fyrirtækið á öðrum tíma. Í þeim hópi reyndist vera ekkja og hún fékk símtal frá okkar manni, en sá ágæti lögreglumaður afsakaði sig í upphafi símtalsins og sagði að erindið væri dálítið skrýtið. Hann byrjaði að segja henni lauslega frá gyllta vasaúrinu sem hefði borist lögreglunni, en þurfti ekki að segja mikið meira því konan kannast strax við úrið og gat lýst því með mjög nákvæmum hætti. Frekari staðfesting á eignarhaldi var með öllu óþörf og konan var síðan fljót að koma og sækja úrið. Það er hið vandaðasta að öllu leyti og verðmætt eftir því, en tilfinningalegt gildi úrsins fyrir konuna verður líklega seint metið til fjár.
Í bréfinu sem fylgdi úrinu var beðist fyrirgefningar á hversu seint því væri skilað, en betra væri seint en aldrei. Ekkert er vitað um höfund bréfsins, en undir það skrifaði 12 spora maðurinn.