5 Febrúar 2018 16:30
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. janúar – 3. febrúar.
Sunnudaginn 28. janúar kl. 23.09 var bifreið ekið á umferðarljósavita á Sæbraut við Laugarnesveg. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun við akstur, var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 29. janúar kl. 16.15 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Dalveg, og bifreið, sem var ekið vestur Fífuhvammsveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 30. janúar. Kl. 8.54 var bifreið ekið vestur Miðskóga og út fyrir veg við Skógarsel. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 10.29 var gangandi vegfarandi fyrir bifreið á bifreiðastæði við Sundlaugaveg gegnt húsi nr. 30. Hann var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 31. janúar kl. 13.21 féll vörubifreið á hliðina þegar ökumaðurinn var að sturta grjóti í húsgrunn við Skógarveg. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 3. febrúar. Kl. 9.45 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg og á trégrindverk gegnt Lyngási. Ökumaðurinn, sem er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.01 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut til norðurs við gatnamót Bústaðavegar. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.