6 Nóvember 2012 12:00
Árleg fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hófst í síðustu viku. Í gær var röðin komin að vesturbæ Reykjavíkur en í nóvember er ráðgert að fulltrúar embættisins heimsæki lykilfólk í hverfum borgarinnar sem og fulltrúa allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Fundurinn með Vesturbæingum, sem var haldinn í Hagaskóla, var sæmilega sóttur en á honum farið yfir stöðu mála og þróun brota í hverfinu undanfarin ár. Sami háttur er hafður á á öllum þessum hverfa- og svæðafundum en fyrirkomulagið hefur gefist vel.
Ekki verður annað sagt en ástandið í þessum borgarhluta sé gott, en innbrotum í vesturbænum hefur fækkað um 43% frá árinu 2007. Svipaða sögu er að segja af ofbeldisbrotum, sem hefur fækkað um 46% á sama tímabili. Fundarmenn voru því almennt nokkuð ánægðir með gang mála, en áhyggjur þeirra sneru helst að umferðarmálum. Nokkuð var um þau rætt og hefur svo verið á flestum hverfafundum lögreglunnar með Vesturbæingum síðustu árin. Fjölmargar hraðamælingar hafa verið framkvæmdar í vesturbænum frá árinu 2008 með myndavélabíl embættisins. Niðurstöðurnar er nýttar til að benda á það sem betur má fara en lögreglan mun að sjálfsögðu halda uppteknum hætti og fylgjast áfram grannt með umferðarhraða í vesturbænum.
Mannlíf í vesturbænum.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is