10 Janúar 2018 16:17
Verkefni lögreglunnar eru fjölbreytt og útköllin eftir því. Um alvarleika mála getur stundum verið erfitt að vita með fullkominni vissu fyrr en komið er á vettvang og því er mikilvægt að hraða sér á staðinn. Þannig var því einmitt farið á dögunum, en þá þurfti lögreglan að bregðast við símtali úr heimahúsi í umdæminu þar sem tilkynnt var um ofbeldisverknað. Tveir lögreglumenn héldu þegar á staðinn, en á heimilinu hafði slegið í brýnu milli tveggja samleigjenda og annar slegið hinn tvívegis í öxlina. Átökin voru yfirstaðin þegar lögreglan kom á vettvang og engir áverkar sjáanlegir, né var vilji til að leggja fram kæru í málinu. Ofbeldismaðurinn var fullur iðrunar og vildi biðjast afsökunar á gjörðum sínum og sagði að upphaf málsins mætti rekja til tannkremstúpu á baðherbergi heimilisins. Við frekari spurningar lögreglumannanna sagðist sá sami hafa ætlað að bursta í sér tennurnar fyrir svefninn, en þá uppgötvað að tannkremið hans var búið. Var þá samleigjandinn beðinn um lán á tannkremi, en hann harðneitaði þeirri bón og vildi ekki afhenda tannkremstúpuna, en við það snöggreiddist ofbeldismaðurinn með fyrrgreindum afleiðingum. Eftir að verkefni lögreglumannanna var lokið á vettvangi hafði annar þeirra á orði við hinn að þetta hlyti nú að hafa verið mjög dýrt tannkrem fyrst að ekki var hægt að fá lánað smávegis af því, án þess þó að í því fælist einhver viðurkenning á viðbrögðum ofbeldismannsins enda voru þau það alls ekki.