28 Desember 2017 15:51
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á skotvopn, fíkniefni og fjármuni við húsleit á heimili í umdæminu í síðustu viku. Um var að ræða bæði haglabyssu og skammbyssur, auk skotfæra. Á sama stað var einnig að finna nokkuð af fíkniefnum, en talið er að um sé að ræða amfetamín, kókaín og e-töflur. Við húsleitina voru einnig haldlagðir töluverðir fjármunir, en grunur leikur á að þeir séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Lögreglan tók enn fremur í sína vörslu stera sem fundust í húsnæðinu. Húsráðandi, karl um fertugt, var yfirheyrður í þágu rannsóknarinnar.
Lögreglan minnir á ábendingarsímann 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.