19 Nóvember 2017 20:41
Nokkur umfjöllun hefur verið á frétta- og samfélagsmiðlum í dag vegna fésbókarfærslu dyravarðar um sinnuleysi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gagnvart stúlku, sem hann taldi vera ósjálfbjarga í miðborginni aðfaranótt laugardags. Lögregla tekur slíkar ábendingar mjög alvarlega og hefur skoðað málsatvik ítarlega, en bæði var kallað eftir skýringum lögreglumanna á vettvangi og farið yfir myndefni úr eftirlitsmyndavélum á svæðinu.
Fram kemur að lögregla hafði í tvígang tal af stúlkunni og bauð fram aðstoð sína. Stúlkan kærði sig hins vegar ekki um aðstoð lögreglu og hélt loks sína leið fótgangandi úr miðborginni ásamt vinkonu. Embættið lítur svo á að lögreglumenn á vettvangi hafi brugðist rétt við, en hafa skal hugfast að í tilvikum sem þessum er gjarnan haft áfram auga með viðkomandi, þ.e. með aðstoð eftirlitsmyndavéla.
Lögreglan þakkar dyraverðinum fyrir að vekja athygli á málinu, en það sýnir að fólk er á varðbergi og stendur ekki á sama. Jafnframt harmar lögreglan að upplifun hans af samskiptum við lögreglumenn á vettvangi hafi ekki verið betri.