20 Nóvember 2017 10:38
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. nóvember.
Mánudaginn 13. nóvember kl. 13.36 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið framan við afgreiðsludyr dekkjaverkstæðis húss nr. 8 við Skútuvog. Bifreiðinni var ekið aftur á bak út af verkstæðinu. Hann var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 14. nóvember kl. 1.42 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg og út af veginum á móts við Hvamm þar sem hún lenti ofan í skurði. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 15. nóvember. Kl. 1.26 féll hjólreiðamaður á gatnamótum Bankastrætis og Lækjargötu. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 18.13 varð drengur fyrir bifreið á Álfaskeiði gegnt húsi nr. 28. Bifreiðinni var ekið til austurs þegar drengurinn hljóp út á götuna milli tveggja mannlausra bifreiða. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.30 varð gangandi vegfarandi, á leið til suðurs á gangstétt austan Skeiðarvogar, fyrir bifreið, sem var ekið frá bifreiðastæði við Vogaskóla áleiðis út á götuna. Hann var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 17. nóvember kl. 17.46 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Salaveg, og bifreið, sem var ekið vestur Arnarnesveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 18. nóvember kl. 18 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Borgavegar og Víkurvegar. Ökumaður og farþegi í annarri bifreiðinni leituðu sér sjálfir aðstoðar á slysadeild í framhaldinu.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfarenda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.