2 Október 2017 11:07
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. september.
Sunnudaginn 24. september kl. 3.42 var bifreið ekið aftan á aðra á Fríkirkjuvegi til suðurs við Skothúsveg og síðan á brott af vettvangi. Ökumaðurinn var stöðvaður í akstri skömmu síðar. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 28. september kl. 17.11 varð hjólreiðamaður á leið austur Sævarhöfða fyrir bifreið, sem var ekið austur götuna, framúr hjólreiðamanninum og beygt áleiðis suður Svarthöfða. Hann var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 29. september. Kl. 19.29 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Lönguhlíð, og bifreið, sem var ekið norður Lönguhlíð og beygt áleiðis vestur Flókagötu. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 22.30 rákust tvær stúlkur á sitthvorri óskráðri vespunni saman á gangstétt við Hagasel nálægt Seljakirkju. Önnur þeirra var flutt á slysadeild. Og kl. 22.59 var bifreið ekið aftan á aðra á leið norður Reykjanesbraut sunnan Bústaðavegar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.