20 September 2017 16:54
Þótt lengi hafi verið á það bent að fleiri konur þurfi til starfa í lögreglunni að þá hefur þeim engu að síður fjölgað hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á allra síðustu árum. Í dag starfa 66 lögreglukonur hjá embættinu og eru þær rúmlega fimmtungur af lögregluliðinu, eða 22%. Til samanburðar má nefna að í ársbyrjun 2014 voru 48 lögreglukonur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, eða 16% af lögregluliðinu. Þetta er jákvæð og ánægjuleg þróun sem vonandi heldur áfram, en þess má geta að á síðasta ári voru konur í meirihluta þeirra sem skráðu sig í nám í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri. Lögreglan vill endurspegla samfélagið og því er mjög mikilvægt að fá líka konur til þessara starfa. Í dag er Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu svo lánsöm að hafa öflugar lögreglukonur innan sinna raða en betur má ef duga skal. Á myndinni má sjá nokkrar frábærar lögreglukonur sem standa vaktina á lögreglustöðinni í Grafarholti.