25 Nóvember 2011 12:00
Umferðarmál voru fyrirferðarmikil þegar lögreglan hitti fulltrúa tveggja hverfa (Háaleiti-Bústaðir og Laugardalur) á fundi í húsakynnum borgarinnar í Hæðargarði í vikunni. Við sameiningu skóla hafa íbúar nú áhyggjur af börnum, sem þurfa að fara yfir Grensásveg. Einnig var bent á hraðakstur á Sogavegi og vakin athygli á því að ökumenn þurfa að gæta vel að sér við akstur á Reykjavegi. Vestan við hann er Laugarnesskóli en austanmegin eru m.a. sundlaug og útivistarsvæði og þessu fylgir töluverð umferð gangandi vegfarenda.
Á fundinum var farið yfir þróun brota í hverfunum en tölfræðina má nálgast með því að smella hér. Að lokinni kynningu lögreglunnar tóku við almennar umræður og þá var m.a. rætt um umferðarmál, eins og áður sagði. Fundarmenn höfðu einnig miklar áhyggjur af lélegri lýsingu í borginni en þau sjónarmið hefur lögreglan heyrt á fleiri fundum í haust. Samhliða var rætt um skort á notkun endurskinsmerkja. Haft var á orði að sennilega þyrfti að sauma þau á klæðnað fólks. Það myndi allavega tryggja að fólk notaði þennan sjálfsagða öryggisbúnað. Margt fleira var rætt á fundinum en á honum var jafnframt greint frá því að ný lögreglustöð verður opnuð á Grensásvegi í næsta mánuði.
Krakkar í hjólatúr.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is