28 Ágúst 2017 10:17
Í síðustu viku slösuðust sextán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. ágúst.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt sunndaginn 20. ágúst. Kl. 9.54 var féll ökumaður af reiðhjóli í göngum hjóla-/göngustígs Bústaðavegar undir Reykjanesbraut. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 14.49 féll ökumaður af reiðhjóli sínu á leið austur Vífilsstaðaveg gegnt Vífilsstöðum. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 19.42 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Hraunhellu, og bifreið, sem var ekið norður Suðurhellu. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar ætlaði í framhaldinu að leita sér aðstoðar á slysadeild. Og kl. 20.08 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Suðurlandsvegi til vesturs gegnt Rauðhólum. Einn ökumannanna og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 22. ágúst. Kl. 11.50 var rafmagnsvespu ekið um göngustíg við Hafnarfjarðarveg um Arnarnesmýri. Þegar komið var að brú hitti ökumaðurinn á hana og lenti hann og farþegi á hjólinu því ofan í skurði við hlið hennar. Báðir voru fluttir á slysadeild. Kl. 19.15 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á malarvegi í Lækjarbotnum. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 21.45 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Hafnarfjarðarveg, og bifreið, sem var ekið vestur Vífilsstaðaveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar ætlaði í framhaldi að leita sér læknisaðstoðar á slysadeild. Og kl. 22.05 féll ökumaður rafmagnsvespu af hjólinu á göngustíg við Salaskóla. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 23. ágúst. Kl. 20.21 var bifreið ekið austur Þingvallaveg, beygt skyndilega til hægri gegnt Leirvogsvatni með þeim afleiðingum að hún lenti á vegriði, fór upp á það og síðan í þrjár veltur utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.25 var strætisvagni ekið austur Miklubraut og á hjóleiðamann, sem var á leið til suðurs yfir götuna austan við gatnamót Háleitisbrautar. Hjólreiðamaðurinn lenti undir vagninum, en var í framhaldinu fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 25. ágúst kl. 14.24 varð árekstur með bifreið, sem var ekið til norðurs á bifreiðastæði við Háskólann í Reykjavík, og bifreið, sem var ekið frá hringtorgi áleiðis inn á bifreiðastæðið. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 26. ágúst kl. 11.22 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið í Skipholti gegnt húsi nr. 49. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.