30 Nóvember 2011 12:00

Rafmagnsvespur voru talsvert til umræðu þegar Garðbæingar hittu fulltrúa lögreglunnar að máli í fyrradag. Þessum tækjum er ekið á göngustígum og gangstéttum í bænum og ökumenn þeirra eru iðulega ungir að árum. Fólk hefur af þessu verulegar áhyggjur og hafa þær líka komið fram á öðrum hverfa- og svæðafundum í umdæminu að undanförnu. Lögreglan tekur undir þessi sjónarmið en getur lítið aðhafst því yfirvöld hafa bæði heimilað aksturinn og eins látið vera að setja lög eða reglur um aldur ökumanna á þessum rafmagnsvespum.

Á fundinum var einnig rætt um innbrot og fíkniefnamál en megintilgangurinn var að fara yfir þróun brota í Garðabæ árin 2008-2011. Sveitarfélagið kemur vel út í þeim efnum og er það svosem engin nýlunda. Það er gott að búa í Garðabæ og hefur ávallt verið. Á fundinum voru einnig birtar niðurstöður úr könnum um viðhorf íbúa til lögreglu. Samkvæmt henni eru Garðbæingar bara nokkuð ánægðir með lögregluna. Hægt er að fræðast frekar um könnunina og þróun brota í bæjarfélaginu með því að smella hér.

Sjálandshverfið.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is