17 Ágúst 2017 11:51
Verkefni lögreglunnar eru margvísleg og ekki alltaf hefðbundin. Þar má nefna afskipti af dýrum, en slík mál eru fleiri en margan grunar. Nótt eina nýverið var óskað lögregluaðstoðar eftir að hestastóð hafði gert sig heimakomið í Breiðholti. Hestarnir höfðu lagt allnokkurn spöl að baki þegar lögreglan mætti þeim á miðri Breiðholtsbrúnni (yfir Reykjanesbrautinni) og þá þurfti að hafa snör handtök. Hestarnir voru reknir af veginum og inn á næsta grasbala á milli Dalvegar og aðreinar að Reykjanesbraut. Smalamennskan krafðist talsverðrar útsjónarsemi og yfirvegunar, en sett var upp tímabundið hestagerði á þessum stað. Lokunarborði lögreglunnar kom að góðum notum við verkið, en hestarnir voru samstarfsfúsir og virtu fyrirmæli lögreglu! Þeim var síðan komið á réttan stað og þar með lauk þessu ævintýri þeirra.