5 Ágúst 2017 16:45
Karl á fertugsaldri er í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu grunaður um rán í Árbæjarapóteki á þriðja tímanum í dag. Ræninginn ruddist inn í apótekið eftir lokun og náði að hafa á brott með sér talsvert af lyfjum. Tveir starfsmenn í apótekinu reyndu að koma í veg fyrir ránið og lenti annar þeirra í átökum við ræningjann og hlaut við það áverka í andliti. Starfsmaðurinn ætlaði sjálfur að leita sér aðhlynningar, en meiðsli hans eru talin minni háttar. Hinn starfsmaðurinn forðaði sér af vettvangi og tilkynnti um málið og brást lögreglan skjótt við, en önnur tilkynning fylgdi fljótlega í kjölfarið og leiddi hún til þess að maðurinn var handtekinn annars staðar í hverfinu. Lagt var hald á bifreið, sem talið er að ræninginn hafi verið á, en í henni var að finna það sem stolið var í apótekinu. Talið er að kona hafi verið í för með ræningjanum, en hún er ófundin þegar þetta er ritað.