6 Júní 2011 12:00
Um 100 reiðhjól verða boðin upp hjá óskilamunadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu nk. laugardag, 11. júní, klukkan 11. Þetta eru reiðhjól sem hafa fundist í óskilum víða í umdæminu og enginn hefur hirt um að sækja. Uppboðið verður haldið utandyra við Askalind 2a í Kópavogi. Þar er skjólgott port og því ætti veðrið ekki að setja strik í reikninginn. Væntanlega verður líf og fjör á uppboði lögreglunnar enda á það sér langa sögu og á þeim er jafnan múgur og margmenni.
Á síðasta ári voru tilkynningar um stolin reiðhjól tæplega 800 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er ljóst hvað verður um meirihluta þeirra en 200 reiðhjól bárust til óskilamunadeildar. Algengt er að hjól berist þangað nokkrum mánuðum eftir að þeim var stolið. Eigendunum nægir því sjaldnast að koma bara til lögreglu strax eftir þjófnaðinn, þeir verða líka að koma aftur nokkrum vikum seinna til að fullreyna hvort hjólin séu í vörslu lögreglu eða ekki.
Samhliða þessu er fólki er bent á mikilvægi þess að geyma reiðhjól á eins öruggum stað og unnt er og alls ekki skilja þau eftir ólæst. Ef illa fer, og hjóli er stolið, getur komið sér vel ef eigandinn hefur raðnúmer (stellnúmer) þess tiltækt. Það auðveldar lögreglu að koma því til skila ef það á annað borð kemur í óskilamunadeild hennar.
Reiðhjólageymsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er í Borgartúni 7b í Reykjavík. Hún er opin á þriðjudögum frá kl. 9 – 12. Þar er hægt að tilkynna reiðhjólið stolið ef það finnst ekki í geymslunni. Óskilageymsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er á Hverfisgötu 113-115 í Reykjavík. Opið er virka daga frá kl. 8.15 – 15.50. Sími 444-1000. Tilkynningar um týnda muni má senda á netfangið: oskilamunir@lrh.is
Frá uppboði lögreglunnar.