26 Apríl 2017 14:33
Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. apríl.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 18. apríl. Kl. 8.09 lenti hjólreiðamaður, á leið vestur Skúlagötu, framan á bifreið, sem var ekið austur Skúlagötu og beygt til norðurs að Sæbraut. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 9.30 var bifreið ekið austur Hjallabraut og aftan á kyrrstæða bifreið við gatnamót Reykjavíkurvegar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Ökumaður aftari bifreiðarinnar er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Og kl. 18.03 var hjólreiðamaður á leið norður með Smiðjuveg fyrir bifreið, sem var ekið frá bifreiðastæði við Tengi áleiðis út á veginn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 20. apríl kl. 15.51 lenti hjólreiðamaður, sem hjólaði austur gangstétt Grettisgötu, á bifreið, sem var ekið út frá bifreiðastæði gegnt húsi nr. 90. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.