28 Janúar 2011 12:00
Þróun brota í Garðabæ var til umfjöllunar á fundi sem fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu áttu með bæjaryfirvöldum í Garðabæ og haldinn var í gær. Um er að ræða árlegan fund sem er hluti af fundarherferð lögreglunnar en fulltrúar hennar hafa undanfarin ár hitt að máli lykilfólk í sveitarfélögunum í umdæminu sem og í öllum hverfum borgarinnar. Fundirnir eru ávallt haldnir í október og nóvember en á þeim er farið yfir stöðu mála á hverjum stað fyrir sig. Af ýmsum ástæðum gafst ekki tími til að hitta Garðbæinga fyrr en nú en hljóðið í þeim var engu að síður nokkuð gott. Það kom reyndar ekki á óvart enda er staða Garðbæinga að mörgu leyti góð þegar rýnt er í tölfræðina. Eins og jafnan áður eru brot þar færri en víðast hvar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og iðulega undir meðaltali í samanburði við önnur svæði.
Engu að síður er alltaf mögulegt að gera betur og á það ekki síst við í umferðarmálum. Í þeim efnum er Garðabær yfir meðaltali þegar umferðarslys eru annars vegar. Skýringuna er væntanlega að finna í þeirri staðreynd að bæði Hafnarfjarðarvegur og Reykjanesbraut liggja í gegnum Garðbæ en á þessum vegum er mikil umferð. Fundarmenn bentu einnig á Vífilsstaðaveg og höfðu áhyggjur af hraðakstri þar, ekki síst m.t.t. gangandi vegfarenda en fjöldi skólabarna fer þarna um. Af öðru efni fundarins má t.d. nefna að rætt var um sólarhringsopnun matvöruverslunar í bænum en því fylgja bæði kostir og gallar og þá var einnig nokkur umræða um sýnileika lögreglu á svæðinu. Að öðru leyti er vísað í tölfræðina sem kynnt var fundarmönnum en hana má nálgast hér.
Það var létt yfir Gunnari Einarssyni bæjarstjóra og fulltrúum lögreglunnar á fundinum í Garðabæ. Mynd: GBK
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is