4 Apríl 2017 16:14
Í Héraðsdómi Suðurlands var þann 30. mars s.l. kveðinn upp dómur í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Jakobssyni vegna brota hans gegn 210. gr. a. almennra hegningalaga nr. 19/1940 með því að hafa haft í vörslum sínum 48.212 ljósmyndir og 484 hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt í tölvugögnum sem fundust í hans vörslu.
Gunnar var sakfelldur fyrir brot sín og dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar en hún skilorðsbundin að öllu leiti annarsvegar vegna skýlausrar játningar hans á brotum þeim sem honum voru gefin að sök og hinsvegar þess dráttar sem varð á rannsókn málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi. Refsirammi fyrir brot af þessu tagi er að hámarki 2 ár.
Hér verður ferill rannsóknarinnar rakinn.
Málið kemur upp þann 10. janúar 2013 en þá er dómfelldi handtekinn vegna gruns um áreit við börn en samkvæmt tilkynningu sem handtakan byggði á lék grunur á broti eða brotum hans gagnvart börnum á vistheimili á Suðurlandi á árinu 2010. Daginn eftir var hann úrskurðaður í viku langt gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins.
Við húsleit vegna þessa máls voru haldlagðir 550 munir sem grunur var um að innihéldu tölvugögn með barnaklámi. Um var að ræða tölvur, harða diska, minnislykla, geisladiska o.fl. Þessi fjöldi muna er fordæmalaus í rannsóknum refsimála á Íslandi.
Þessi tvö mál voru rannsökuð samhliða en fyrra málið, það sem snéri að meintum brotum gegn börnum síðan klofið frá rannsókninni og sent ríkissaksóknara þann 31. mars 2014 sem fellir það niður þann 01.06.2015 með vísan í 145. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellis.
Það gríðarlega magn af tölvugögnum sem fannst við húsleitina var sent tölvurannsóknardeild Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu til úrvinnslu. Niðurstöður á rannsókn einstakra muna eru að berast frá deildinni með reglulegu millibili til lögreglunnar á Selfossi þar til í mars 2014 þegar þeirri rannsókn lauk og er málið sent ríkissaksóknara til ákærumeðferðar 31.mars 2014.
Með bréfi dags. 10. 07.2015 óskar ríkissaksóknari eftir frekari rannsókn á tölvugögnum þeim sem áður hafði verið skilað til hans og tók þá á ný við vinna tölvudeildar LRH. Um var að ræða mjög umfangsmikla endurvinnslu og breytta framsetningu gagna sem kallaði á nýja yfirferð nær allra gagna sem áður höfðu verið rannsökuð. Þeirri vinnu lauk 02.10.2016 og var málið þá afgreitt til ákærusviðs Lögreglustjórans á Suðurlandi sem tók málið til meðferðar 14.10.2016 og var ákærða birt þann 16.01.2017. Meðferð málsins lauk fyrir héraðsdómi með dómsuppkvaðningu þann 30. mars s.l. eins og fram hefur komið.
Á rannsóknartímanum urðu breytingar á lögum um ákæruvald og fluttist það frá ríkissaksóknara til lögreglustjóra.
Fyrir liggur að á þeim tíma sem unnið var að rannsókninni var tölvudeild LRH jafnframt undirlögð af rannsóknum tölvugagna vegna fjármunabrota og annarra mála sem upp komu. Að auki má leiða að því líkum að niðurskurður til löggæslu hafi ekki hjálpað til, hvorki þar eða hjá öðrum stofnunum sem að málsmeðferðinni komu.
Einn og sami sérfæðingur hjá tölvudeild LRH annaðist rannsókn þessara gagna allra í bæði skiptin. Vinna sem þessi tekur á og er það mat lögreglu á Suðurlandi að hann hafi unnið þrekvirki með vinnu sinni enda reyna rannsóknir sem þessar verulega á andlegt þrek heilbrigt hugsandi manna.