5 Nóvember 2010 12:00
Fjármunabrot og peningaþvætti tengt skipulagðri brotastarfsemi voru í brennidepli á tveggja daga námskeiði, sem haldið var í Lögregluskólanum nýverið. Rannsóknir slíkra mála eru oft mjög umfangsmiklar en á námskeiðinu, sem var bæði fróðlegt og fjölsótt, var farið yfir fjölmörg atriði sem að þessu snúa. Sex erlendir sérfræðingar komu gagngert til landsins til að flytja erindi á námskeiðinu en tveir íslenskir sérfræðingar á þessu sviði komu líka við sögu. Það voru lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og embætti sérstaks saksóknara sem stóðu fyrir námskeiðinu í samvinnu við Lögregluskólann og nokkrar stofnanir í Bandaríkjunum. Flestir þátttakenda á námskeiðinu voru frá áðurnefndum embættum en einnig sóttu það starfsmenn nokkurra samstarfsaðila þeirra.