9 Mars 2017 16:30
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns lítillar, grárrar sendibifreiðar (mögulega Citróen Berlingo) sem var ekið aftan á dökkleitan Hyundai Tucson á gatnamótum Suðurhóla og Vesturbergs í Breiðholti um hálfáttaleytið í morgun. Ökumaður bílsins, sem ekið var á, fann fyrir nokkru höggi og ók út í kant þar sem hann bjóst við að tjónvaldurinn myndi nema staðar til að ræða málið og fylla út tjónaskýrslu. Af því varð hins vegar ekki því tjónvaldurinn fór strax af vettvangi án þess að skeyta frekar um áreksturinn, en nokkurt tjón varð á Hyundai Tucson-bifreiðinni.
Þeir sem búa yfir vitneskju um gráleitu sendibifreiðina og ökumann hennar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið gunnarh@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en lögreglan hvetur jafnframt ökumanninn til að gefa sig fram.