16 Janúar 2017 08:39
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar enn Birnu Brjánsdóttur, tvítugrar konu sem lýst var eftir í fjölmiðlum um helgina. Birna er um 170 sm á hæð, með sítt ljósrautt hár, klippt með topp fram á ennið. Hún var klædd í svartar gallabuxur, gráa peysu og svartan flísjakka með hettu. Þá var hún í svörtum uppreimuðum Dr. Martens skóm.
Síðast er vitað um að Birna hafi verið í samskiptum við fólk á skemmtistaðnum Húrra við Tryggvagötu í Reykjavík. Birna sést í eftirlitsmyndavélum ganga ein síns liðs austur Austurstræti, Bankastræti og Laugaveg að húsi nr. 31 þar sem hún hverfur sjónum um kl 05:25. Lögreglan biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um ferðir Birnu og hvar hún er niðurkomin að hafa samband við lögreglu í síma 444 1109.
Í þágu rannsóknar þessa máls eru meðfylgjandi nokkrar myndir úr eftirlitsmyndavélum í miðborginni. Á myndunum má sjá rauða fólksbifreið sem sennilega er af gerðinni Kia Rio. Bifreiðinni var ekið vestur Laugaveg á móts við hús nr. 31, kl. 05:25 aðfararnótt laugardagsins 14. janúar sl. Í því skyni að leita upplýsinga um ferðir Birnu biður lögreglan ökumann rauðu bifreiðarinnar að hafa samband við lögreglu í síma 444 1109 sem allra fyrst. Þá biður lögreglan alla þá sem voru á ferðinni á þessum slóðum um kl. 05:25 aðfararnótt 14. janúar sl., og kynnu að hafa veitt Birnu Brjánsdóttur athygli að hafa samband við lögreglu.