2 Janúar 2017 14:25
Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. – 31. desember.
Mánudaginn 26. desember kl. 20.47 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem var ekið norður Vatnsendahvarf. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 29. desember. Kl. 15.17 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið í Faxafeni. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.45 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg og á ljósastaur gegnt Korputorgi. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 30. desember. Kl. 15.07 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut og utan í vegrið gegnt Kársnesbraut. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.21 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut. Sunnan Arnarnesvegar missti ökumaður stjórn á bifreiðinni er hann var að skipta um akrein með afleiðingum að hún fór útaf, upp í grasbrekku og valt yfir á toppinn. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 31. desember. Kl. 12.07 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Háaleitisbraut, og bifreið, sem var ekið austur Miklubraut. Við áreksturinn kastaðist síðarnefnda bifreiðin á bifreið, sem var ekið vestur Miklubraut. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild. Og kl. 14.43 varð aftanákeyrsla á Hjallabraut til vesturs við Reykjavíkurveg. Farþegi í síðarnefndu bifreiðinni voru fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.