23 Desember 2016 14:42
Skýrslan Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2015 er komin út í tíunda sinn í þessari mynd. Í skýrslunni er fjallað um tíðni afbrota á höfuðborgarsvæðinu, en markmiðið er m.a. að halda árlega skrá yfir afbrot í umdæminu og mæla þróun í afbrotatíðni milli ára.
Á heildina litið þá fjölgaði skráðum hegningarlagabrotum á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 20 prósent á milli ára. Umferarlagabrotum fjölgaði einnig, en skráð voru 28.665 brot á svæðinu árið 2015 sem er um 21 prósent fleiri brot en skráð voru að meðaltali síðustu þrjú ár á undan. Sérrefsilagabrotum fækkaði hins vegar um 12 prósent miðað við árið 2014.
Af hegningarlagabrotum fjölgaði ofbeldisbrotum hlutfallslega mest á milli ára, eða um 35 prósent. Fjölgunin árið 2015 er að mestu tilkomin vegna aukningar á minniháttar líkamsárásum, en nýtt verklag lögreglu í heimilisofbeldismálum tók formlega gildi 12. janúar 2015 sem skýrir þessa fjölgun. Niðurstöður úr mati á þessum verklagsbreytingum sína að ofbeldisbrotum hafi ekki fjölgað í samfélaginu heldur að þolendur hafi í ríkara mæli tilkynnt ofbeldisbrotin til lögreglu.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 5.126 tilkynningar um auðgunarbrot árið 2015 sem er fjölgun um tæplega átta prósent miðað við meðaltal fyrir árin 2012 til 2014. Tilkynnt auðgunarbrot voru um 55 prósent allra tilkynntra hegningarlagabrota. Tilkynnt var um 21 prósent fleiri innbrot árið 2015 miðað við árið 2014 og bárust flestar tilkynningar á milli klukkan 16 og 19 á föstudags- og laugardagskvöldum.
Að jafnaði bárust 23 tilkynningar um kynferðisbrot í hverjum mánuði árið 2015 og fjölgar tilkynningum um 16 prósent á milli ára. Tilkynnt var um 126 nauðganir árið 2015 sem er um 40 prósent fjölgun miðað við meðaltal áranna 2012 til 2014.
Fíkniefnabrotum fækkar um 23 prósent á milli ára. Er þetta í fyrsta sinn síðan 2009 sem skráðum fíkniefnabrotum fækkar á milli ára. Skráð voru 1.333 mál árið 2015, en 1.737 árið áður. Hins vegar var lagt hald á meira magn fíkniefna árið 2015 miðað við árið 2014. Þar má helst nefna að um 24 sinnum meira magn af ecstsy var haldlagt árið 2015 en gert var árið 2014 og um það bil sex sinnum meira magn af amfetamíni og kókaíni.