23 Júní 2010 12:00
Fulltrúi frá bandarísku fíkniefnalögreglunni, DEA, heimsótti Ísland á dögunum og hélt fræðsluerindi í Lögregluskólanum. Það sóttu bæði lögreglumenn og tollverðir en tilgangurinn með fræðslu sem þessari er að auka færni og þekkingu þeirra sem berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi en þar koma fíkniefni mjög við sögu. Það voru lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Lögregluskólinn sem stóðu að þessu erindi í sameiningu en þeim sem vinna við málaflokkinn var boðið sérstaklega að koma og hlýða á fulltrúa bandarísku fíkniefnalögreglunnar. Sá heitir Anton Kohut og hefur komið hingað alloft en hann er sérstakur tengiliður við íslensku lögregluna í þessum málaflokki.
Fulltrúinn fór ítarlega yfir stöðu og þróun mála í mjög áhugaverðu erindi og fjallaði m.a. um framleiðslu kókaíns og einnig helstu smyglleiðir inn í Evrópu. Sagði hann að fíkniefni frá Suður-Ameríku færu t.d. gjarnan um Vestur-Afríku á leið til Evrópu. Misjafnlega gengur að sporna við þessu og kemur margt til en sumstaðar er mikil spilling og þar eru bæði embættis- og stjórnmálamönnum mútað. Annars staðar er það skortur á eftirliti við landamæri sem gerir lögreglunni erfitt fyrir. Eystrasaltslöndin voru nefnd í því sambandi en Eistland, Lettland og Litháen eiga Schengen-landamæri að Hvíta-Rússlandi og Rússlandi. Og frá þessum stöðum berast fíkniefni til annarra Evrópulanda, þ.m.t. Ísland.
Anton Kohut, fulltrúi frá bandarísku fíkniefnalögreglunni, og Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar LRH.