22 Nóvember 2016 14:01
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í liðinni viku án þess að hægt sé að segja að alvarleg mál hafi komið upp. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og fá útköll á skemmtistaði bæjarins.
Undir kvöld þann 18. nóvember sl. var tilkynnt um líkamsárás í heimahúsi en þarna höfðu tveir menn verið ósáttir við hvor annan sem endaði með handalögmálum. Ekki var um alvarlega áverka að ræða og óljóst um málsatvik. Málið er í rannsókn.
Einn fékk að gista fangageymslur lögreglu um helgina en hann hafði verið til óþurftar á einum af öldurhúsum bæjarins sökum ölvunar og óspekta. Viðkomandi má búast við sekt vegna atviksins.
Alls liggja fyrir sjö kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna en m.a. er um að ræða vanrækslu á að nota öryggisbelti í akstri, notkun farsíma í akstri án handfjáls búnaðar og ólöglega lagningu ökutækja.
Eitt umferðaróhapp var tilkynnt í liðinni viku en um var að ræða útafakstur bifreiðar á Höfðavegi við Norðurgarð. Þarna hafði ökumaður blindast sökum þess að sól er lágt á lofti og endaði bifreiðin utan vega. Engin slys urðu á fólki og þá varð minniháttar tjón varð á bifreiðinni.