3 Október 2016 12:36
Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. september. – 1. október.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 26. september. Kl. 6.28 lenti bifreið á ljósastaur við Reykjanesbraut á móts við Góu – á leið til norðurs. Ökmaðurinn, sem hafði sofnað undir stýri, var fluttur á slysadeild. Kl. 17.24 varð drengur á reiðhjóli fyrir bifreið á gangbraut á Flatahrauni gegnt Iðnskólanum. Bifreiðinni hafði verið ekið til vesturs, en sól blindað útsýni ökumanns. Drengurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 17.27 féll drengur af reiðhjóli sínu er hann hjólaði upp á götukant á Suðurgötu gegnt húsi nr. 45. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.09 var ekið á hjólreiðamann, sem hjólaði norður eftir gangstétt í Skeiðarvogi og áfram áleiðis yfir gatnamót Gnoðavogs. Bifreiðinni var ekið suður Skeiðarvog og beygt til vesturs inn á Gnoðarvog þegar slysið varð. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 27. september. Kl. 11.59 varð aftanákeyrsla á Miklubraut við Reykjahlíð á leið til vesturs. Farþegi í aftari bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.33 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Höfðabakka og beygt áleiðis vestur Stekkjarbakka, á móti rauðu ljósi, í veg fyrir bifreið, sem var ekið suður Höfðabakka. Farþegi í síðarnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 28. september kl. 13.03 varð gangandi vegfarandi á leið til vesturs á gangbraut yfir Kringlumýrarbraut norðan Hamrahlíðar fyrir bifreið, sem ekið var norður Kringlumýrarbraut. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 30. september. kl. 8.14 lenti stúlka á reiðhjóli – á leið vestur yfir Holtaveg á hraðahindrun við Skipasund – fyrir bifreið, sem var ekið var suður götuna. Hrím á framrúðunni hafði verið skafið mjög takmarkað af. Stúlkan var flutt á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.