27 September 2016 09:51
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. september.
Sunnudaginn 18. september kl. 15.40 lenti hjólreiðamaður, sem hjólaði til austurs eftir gangstétt við Vesturhóla, fyrir bifreið, sem var ekið suður Fýlshóla. Gróður við gatnamótin hindraði útsýni ökumanns áður en óhappið varð. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 19. september kl. 14.40 varð drengur fyrir bifreið á gangbraut yfir Strandgötu við Flensborgar-hringtorg. Drengurinn leitaði sér læknisaðstoðar á slysadeild eftir óhappið.
Miðvikudaginn 21. september kl. 8.52 varð aftanákeyrsla á Miklubraut á leið til vesturs austan Háaleitisbrautar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 22. september kl. 19.09 lenti hjólreiðamaður á leið til norðurs á gangbraut yfir Geirsgötu við Naustin á bifreið, sem ekið var austur götuna. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 23. september. Kl. 6.40 féll hjólreiðamaður af hjólinu í Vallarbyggð er bakpoki flæktist í framhjólinu. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.03 var bifreið ekið austur Kleppsveg og á ljósastaur á miðeyju gegnt húsi nr. 72. Ökumaðurinn, sem hafði fengið flogakast við aksturinn, var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 24. september. Kl. 13.29 var bifreið ekið norður Stekkjarbakka og aftan á kyrrstæða bifreið framundan gegnt Garðheimum, sem kastaðist áfram á þriðju bifreiðina, sem einnig var kyrrstæð. Ökumaður miðbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 15.51 varð fjögurra bifreiða árekstur í Kollafirði. Bifreið var ekið til suðurs og hugðist ökumaðurinn beygja til hægri inn á bifreiðastæði þegar bifreið lenti aftan á henni. Síðan bætti þriðji ökumaðurinn um betur, ók aftan á aftari bifreiðina með þeim afleiðingum að fremri bifreiðarinar tvær köstuðust áfram og lenti fremsta bifreiðin á kyrrstæri bifreið inni á bifreiðastæðinu. Ökumaður næst öftustu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.19 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Hringbraut á leið til vesturs við gatnamót Njarðargötu. Ökumaður og farþegi í miðbifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.