5 September 2016 13:41
Tveir ökumenn voru stöðvaðir í vikunni vegna gruns um að vera undir áhrifum fíkniefna og eða lyfja. Annar þeirra var í akstri rétt fyrir miðnættið þann 2. september en hinn aðfaranótt 4. sama mánaðar. Sá fyrri var í akstri á Ísafirði en hinn á milli Súðavíkur og Ísafjarðar.
Tilkynnt var um þrjú tilvik þar sem ekið var á kindur. Vettvangur var á Arnkötludal, Steingrímsfjarðarheiði og í Dýrafirði. Ekki var tilkynnt um önnur umferðaróhöpp í umdæminu á þessu tímabili.
Alls voru 29 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu.
Einn ökumaður var kærður fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu á gatnamótum einum á Ísafirði.
Föstudaginn 2. september lagði lögreglan hald á um 50 grömm af kannabisefnum sem fundust í fórum einstaklings sem hafði dvalarstað á Ísafirði. Sá viðurkenndi að eiga efnin en hafa ætlað þau til eigin neyslu. Aðilanum var sleppt að yfirheyrslu lokinni enda telst málið upplýst.
Lögreglan vill minna börn og foreldra á útivistarreglurnar, en nú þann 1. september styttist útivistatími barna um tvær klukkustundir umfram það sem var í sumar.
Þá vill lögreglan minna ökumenn á að yfirfara ljósabúnað bifreiða sinna. En það er enn brýnna þegar kemur að þessum árstíma m.t.t. birtuskilyrða. Þá er rétt að huga að endurskinsmerkjum á yfirhöfnum þeirra sem eru hjólandi eða á gangi seint að kveldi eða að nóttu til.