25 Ágúst 2016 17:26
Þessa dagana er lögreglan m.a. við umferðareftirlit við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu, en óhætt er að segja að ástandið sé ekki nógu gott. Hraðamælingar það sem af er vikunni sýna að brotahlutfallið í og við grunnskólana er hátt og full ástæða til að minna ökumenn á að aka hægar og sýna meiri tillitssemi. Í dag var lögreglan við hraðamælingar á Neshaga í nágrenni Melaskóla, en þar ók rúmlega fimmtungur ökumanna of hratt, eða yfir leyfðum hámarkshraða. Ástandið í Rofabæ við Árbæjarskóla í morgun var enn verra, en þar ók tæplega þriðjungur ökumanna of hratt. Sama brotahlutfall var í nágrenni Ölduselsskóla í fyrradag og í gær ók hátt í fimmtungur ökumanna of hratt framhjá Klébergsskóla á Kjalarnesi. Loks er að nefna að helmingur ökumanna, eða 50%, ók of hratt þegar lögreglan var við hraðamælingar í námunda við Hólabrekkuskóla og Fellaskóla á mánudag. Ekki er ástæða til að ætla að ástandið sé eitthvað skárra við aðra grunnskóla í umdæminu, en lögreglu hafa borist kvartanir vegna þessa, m.a. frá áhyggjufullum foreldrum í Grafarholti og þykir okkur ástæða til að nefna það sérstaklega í þeirri von að ökumenn þar taki þessa ábendingu til sín.
Lögreglan minnir ökumenn, enn og aftur, á að aka varlega, ekki síst í námunda við skóla enda margir þar á ferli, m.a. nýir vegfarendur sem eru að hefja skólagöngu. Að síðustu má geta þess að undanfarna daga hafa hátt í 200 ökumenn verið staðnir að hraðakstri í og við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu, og eiga hinir sömu sekt yfir höfði sér.