17 Ágúst 2016 17:12
Karl á þrítugsaldri hefur verið handtekinn eftir að bíl var stolið við leikskóla í Salahverfinu í Kópavogi á fjórða tímanum í dag. Tveggja ára barn var í bílnum þegar honum var stolið, en bíllinn fannst um 25 mínútum síðar í Kórahverfinu. Talið er að barnið hafi verið sofandi meðan á þessu stóð. Lögreglan hóf víðtæka leit að bílnum um leið og tilkynningin barst, en þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð til aðstoðar. Bíllinn hafði verið skilinn eftir í gangi þegar honum var stolið. Maðurinn sem nú er í haldi vegna málsins hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, m.a. vegna nytjastuldar.