19 Maí 2009 12:00
Um 150 reiðhjól verða boðin upp hjá óskilamunadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu nk. laugardag, 23. maí, klukkan 13. Uppboðið verður haldið utandyra við Askalind 2a í Kópavogi. Að þessu sinni verða eingöngu boðin upp reiðhjól enda safnast þau upp hjá lögreglunni líkt og fyrr. Þetta eru reiðhjól sem hafa fundist í óskilum víða í umdæminu og enginn hefur hirt um að sækja.
Væntanlega verður líf og fjör við Askalind 2a í Kópavogi nk. laugardag enda á uppboð lögreglunnar sér langa sögu og á þeim er jafnan múgur og margmenni. Uppboðið er haldið í skjólgóðu porti sem þarna er og því ætti veðrið ekki að setja strik í reikninginn.