18 Júlí 2016 14:33
Þriðjudaginn 12. júlí fór áhöfn þyrlu LHG, TF-GNÁ, ásamt lögreglumanni frá Ísafirði og tveimur starfsmönnum Fiskistofu í eftirlitsflug einkum yfir Hornstrandafriðlandinu. Gera má ráð fyrir því að árlega fari um 6000 manns um þetta friðland. Meðal þess sem athugað er í þessum ferðum er fjöldi og meðferð vélknúinna ökutækja í friðlandinu, netalagnir, almenn umgengni um þetta viðkvæma og verðmæta landsvæði. Þá er athugað með hugsanlega landgöngu ísbjarna.
Um hádegisbilið þann 13. júlí barst hjálparbeiðni í gegnum Neyðarlínuna (112) vegna manns sem var kominn í sjálfheldu með tvö börn í Sandafelli, ofan við byggðina á Þingeyri. Björgunarsveitamenn komu fólkinu til bjargar.
Í vikunni hafði lögreglan afskipti af bát sem skráður er sem farþegabátur. Grunur leikur á að lögskráningu hafi verið ábótavant. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.
Síðdegis þann 15. júlí barst í gegnum Neyðarlínuna hjálparbeiðni frá veitingastað á Ísafirði. En eldur varð laus í eldhúsi staðarins. Starfsmenn veitingastaðarins voru búnir að slökkva eldinn að mestu þegar slökkiliðið kom á vettvang. Tjón varð óverulegt.
Lögreglumenn í eftirliti höfðu afskipti af tveimur ungmennum sem ekki höfðu aldur til að meðhöndla áfengi en þau reyndust ölvuð. Þetta var á Bíldudal aðfaranótt laugardagsins 16. júlí. Þeim var ekið heim til foreldra sinna og barnaverndaryfirvöldum í Vesturbyggð gert viðvart um afskiptin.
Þann 16. júlí var lögreglu tilkynnt um að plast utan um heyrúllur, sem stóðu á berangri ofan við Birkimelsskóla á Barðaströnd, hafi verið skorið. Alls mun þessi vörn á átta heyrúllum hafa verið skemmd. Lögreglan þiggur upplýsingar um hver eða hverjir gætu verið hér að verki. Sími lögreglunnar er 444 0400.
Á níunda tímanum sunnudagsmorguninn 17. júlí handtóku lögreglumenn karlmann sem grunaður er um að hafa ekið bifreið ölvaður í Ísafjarðardjúpi, skammt frá Ögri. Maðurinn var handtekinn og færður í fangaklefa á Ísafirði og hann yfirheyrður þegar af honum rann víman.
Seint að kveldi 17. júlí var tilkynnt um slys fyrir utan Bíldudalshöfn en þar voru tveir aðilar á sitt hvorri sæþotunni á ferð. Þoturnar skullu saman með þeim afleiðingum að annar hlaut a.m.k. handleggsbrot og var fluttur með sjúkraflugvél til Reykjavíkur, til aðgerðar. Hinn aðilinn hlaut minni háttar áverka.
Tilkynnt var um tvo hvalreka í umdæminu í vikunni. Í öðru tilvikinu var um að ræða hval í Furufirði en í hinu í Bjarnafirði. Umhverfisstofnun var gert viðvart eins skv. venju.
Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í liðinni viku. Annað óhappið varð á Barðastrandavegi, þegar bifreið var ekið aftan á aðra. Ekki urðu alvarleg slys á fólki. Í hinu tilvikinu var um að ræða bifreið sem ekið var út af Örlygshafnarvegi. Engin slys urðu á fólki í því tilviki.
Alls voru 46 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu.
Um sl. helgi var mikið um hátíðarhöld á norðanverðum Vestfjörðum. En þessa helgi fór fram svk. Hlaupahátíð á Vestfjörðum í Ísafjarðarbæ en einnig, þessa sömu helgi, var haldið upp á að 150 ár eru liðin frá því að Ísafjarðarbær, áður Ísafjarðarkaupstaður, fékk kaupstaðaréttindi. Margt var um manninn og mikið um að vera. Þá var haldið hið árlega Ögurball í félagsheimilinu Ögri við Ísafjarðardjúp sl. laugardagskvöld. Allar þessar samkomur fóru vel fram.