22 Maí 2009 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið 10 stafrænar myndavélar að gjöf frá VÍS. Myndavélarnar koma að góðum notum en þær verða hafðar í útkallsbílum lögreglunnar. Með gjöfinni vill VÍS leggja sitt af mörkum til að efla starf lögreglunnar. Það var Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, sem afhenti myndavélarnar en Stefán Eiríksson lögreglustjóri veitti þeim viðtöku. Lögreglustjóri sagði við það tækifæri að myndir sem teknar eru strax og lögregla kemur á vettvang geti haft mikla þýðingu. Hann bætti við að VÍS væri einn margra samherja sem ynnu að sömu markmiðum og lögreglan en það er að upplýsa og draga úr afbrotum. Á meðfylgjandi mynd eru Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, og Stefán Eiríksson lögreglustjóri með eina af myndavélunum.