21 Júní 2016 09:06
Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. júní.
Sunnudaginn 12. júní kl. 1.13 var bifreið ekið suður Hamraberg þar sem hún hafnaði inni í garði húss við Kvistaberg. Ökumaður er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar.
Þriðjudaginn 14. júní kl. 14.56 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Sæbraut og beygt áleiðis vestur Holtaveg, í veg fyrir bifreið, sem ekið var suður Sæbraut. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 16. júní kl. 3.32 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut frá Kaplakrika, á röngum vegarhelmingi. Þegar stutt var að Lækjargötu var bifreiðinni ekið á ská upp grasmön austan götunnar og á trégrindverk. Við það valt hún nokkrar veltur niður á akbrautina. Ökumaðurinn, sem grunaður er um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 17. júní kl. 10.13 var bifhjóli ekið vestur hægri akrein Sæbrautar. Vestan Skúlagötu lenti það aftan á bifreið, sem ekið var þar til vesturs og beygt til norðurs áleiðis að Sólfarinu. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.