20 Júní 2016 14:48
Einn ökumaður var kærður í liðinni viku fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Sá var stöðvaður að kveldi 13. júní í Ísafjarðardjúpi, á leið til Ísafjarðar. Við leit í bifreiðinni fundust 20 grömm af kannabisefnum sem farþegi bifreiðarinnar viðurkenndi að eiga.
Þann 13. júní var tilkynnt um að kassa, áföstum golfskálanum við golfvöllinn, skammt sunnan Hólmavíkur, hafi verið numinn á brott með þeim fjármunum sem í honum voru. Kassinn hefur að geyma vallargjöld þeirra sem nota völlinn hverju sinni. Atvikið er talið hafa átt sér stað á tímabilinu frá 11. júní til 13. s.m. Ekki er ljóst á þessu stigi hversu miklir fjármunir hafi verið í kassanum. Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um þennan þjófnað eru hvattir til að hafa samband við lögregluna í síma 444 0400.
Aðfaranótt 19. júní hafði lögreglan afskipti af fjórum ungmennum sem reyndust ölvuð á almanna færi í Bolungarvík. Þeim var komið til síns heima og foreldrum gert viðvart.
Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í vikunni. Í öðru tilvikinu var um bílveltu að ræða við Krossholt á Barðaströnd. Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, hlaut ekki alvarleg meiðsl en bifreiðin var óökufær eftir óhappið. Hitt óhappið varð á bifreiðastæði í Dynjandisvogi í Arnarfirði. Þar rann bifreið á aðra kyrrstæða. Ekki hlutust miklar skemmdir af þessu óhappi enda hraðinn lítill á bifreiðinni.
15 ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Þessir ökumenn voru mældir og stöðvaðir í Strandasýslu, Barðastrandasýslu, Súðavíkurhreppi og í Ísafjarðarsýslu.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að leggja ólöglega á Ísafirði.
Þrír ökumenn voru kærðir í vikunni fyrir að aka með útrunnin ökuréttindi.
Skráningarnúmer voru tekin af þremur bifreiðum sem ekki höfðu verið færðar til lögbundinnar skoðunar á tilsettum tíma.
Í gærkveldi handtók lögreglan karlmann í miðbæ Ísafjarðar. Sá var greinilega undir áhrifum fíkniefna og við leit á honum fundust um 4 gr. af ætluðu amfetamíni. Þegar nánari leit var gerð á dvalarstað mannsins fannst meira magn af samskonar efni, ætlað amfetamín. Maðurinn var vistaður í fangaklefa og skýrsla tekin af honum þegar af honum rann víman. Lögregluna grunar að maðurinn hafi ætlað efnin til sölu á norðanverðum Vestfjörðum.
Ástæða er til að minna þá sem draga íslenska fánann að húni, af hvaða tilefni sem er, að fylgja fánalögunum hvað tímalengd varðar. Íslenska fánann má draga ekki draga að húni fyrr en klukkan sjö að morgni og skal hann að jafnaði eigi vera lengur uppi en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.
Þá er rétt að minna sauðfjárbændur á að reyna að tryggja að lamfé sé ekki á eða við vegi í umdæminu. Sömuleiðis eru ökumenn minntir á að aka með aðgát í þessu sambandi. Í vikunni sem leið var ekið á lömb, annars vegar í Dýrafirði og hins vegar í Önundarfirði.