7 Júní 2016 17:03
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur og einn lést í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. maí – 4. júní.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 30. maí. Kl. 8.31 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Vífilsstaðaveg og beygt áleiðis norður Hnoðraholtsbraut, og bifreið, sem ekið var vestur Vífilsstaðaveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.05 missti ökumaður bifhjóls stjórn á hjóli sínu á Þingvallavegi til austurs á milli Skálafellsvegar og Gljúfrasteins, lenti utan í vegriði og síðan á stólpa þess. Hann hafði verið í för tveggja annarra og ökuhraðinn verið um 120-130 km/klst. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Þriðjudaginn 31. maí kl. 13.12 féll stúlka af reiðhjóli þar sem hún hjólaði norður eftir Vesturhólum og framhjá gatnamótum að Blikahólum. Stúlkan var flutt á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 1. júní. Kl. 13.25 lenti drengur á reiðhjóli á hægri framhlið bifreið, sem ekið var vestur Herjólfsgötu við Sundhöllina. Drengurinn hafði hjólað framundan kyrrstæðri skólabifreið við götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 14.21 varð árekstur með bifreið, sem ekið var suður Fjarðarhraun, og bifreið, sem ekið var norður Fjarðarhraun og beygt áleiðis vestur Hjallahraun. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.12 varð þríhjóla rafmagnsvespa, sem ekið var á gangbraut áleiðis norður yfir Víkurveg, fyrir bifreið, sem ekið var austur Borgarveg að Víkurvegi. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 3. júní. Kl. 0.45 féll ökumaður bifhjóls af hjólinu við gatnamót Skjólvangs og Hjallabrautar eftir eftirför lögreglu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 14.12 varð barn fyrir bifreið á Birkimel við Arngrímsgötu. Barnið var flutt á slysadeild. Og kl. 20.39 varð kona fyrir bifreið sem ekið var hægt austur Bústaðaveg við Ásgarð. Hún var flutt á slysadeild.
Laugardaginn 4. júní kl. 13.01 varð aftanákeyrsla á Laugavegi við Kringlumýrarbraut á leið til austurs. Farþegi í fremri bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.