2 Júní 2016 16:45
Ekkert lát er á stöðubrotum á höfuðborgarsvæðinu, en lögreglan hefur ítrekað afskipti af ökutækjum sem lagt er ólöglega í umdæminu. Lögreglan hvetur ökumenn til að leggja löglega, m.a. til að þeir komist hjá útgjöldum en sekt vegna stöðubrots í Reykjavík er 10000 kr. og 5000 kr. í öðrum sveitarfélögum í umdæminu. Þeir sem leggja í stæði sérmerktum fötluðum fá 20000 kr. sekt í Reykjavík hafi þeir ekki heimild til slíks, en 10000 kr. sekt er fyrir sama brot í öðrum sveitarfélögum í umdæminu.
Undanfarið hefur nokkuð borið á því að bílum er lagt ólöglega við knattspyrnuvelli víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu og fyrr í vikunni mátti sjá það sama í Laugardalnum þegar stórviðburður fór þar fram. Allnokkrir fengu sekt á fyrrnefndum stöðum, en hinir sömu settu það fyrir sig að ganga smáspöl á áfangastað. Lögreglan hvetur ökumenn til að gera betur í þessum efnum svo komist verði hjá því að sekta hina sömu.