30 Maí 2016 20:45
Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. maí.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 22. maí. Kl. 14.06 féll stúlka af reiðhjóli þegar hún hjólaði eftir gangstétt meðfram Þúsöld á móts við Húsasmiðjuna. Hraðinn var orðinn of mikill, en þegar stúlkan ætlaði að stöðva kollsteyptist hjólið með framangreindum afleiðingum. Hún var flutt á slysadeild. Og kl. 16.25 varð árekstur með tveimur bifreiðum, á brúnni á Bústaðavegi við Kringlumýrarbraut. Annar ökumannanna er grunaður um ölvunarakstur. Tveir voru fluttir slasaðir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 24. maí. Kl. 17.37 varð árekstur með bifreið, sem ekið var um Orrahóla að Norðurhólum með akstursstefnu til vesturs, og bifhjóli, sem ekið var austur Norðurhóla. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.30 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Bæjarbraut, og bifreið, sem var ekið inn á Bæjarlind frá bensínstöð við götuna. Ökumaður og farþegi í síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 27. maí. Kl. 12.22 varð aftanákeyrsla á Fjarðarhrauni til austurs við Hólshraun. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 14.03 var dráttarbifreið ekið á kyrrstæða vörubifreið á athafnasvæði Samskips við Holtaveg. Ökumaður vörubifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 15.05 skaust steinn frá afturhjólbörðum malarflutningabifreiðar, sem ekið var um Reykjanesbraut á móts við Ikea. Grjótið hafnaði í hægri hliðarrúðu bifreiðar, sem ekið var á eftir henni. Farþegi í framsæti bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.33 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Sæbraut, og bifreið, sem ekið var vestur götuna með fyrirhugaða U-beygju á gatnamótum Langholtsvegar. Þrennt var flutt á slysadeild.
Laugardaginn 28. maí kl. 17.02 varð árekstur með bifreið, sem ekið var suður Hafnarfjarðarveg, og bifreið, sem ekið var norður Hafnarfjarðarveg og beygt áleiðis vestur Álftanesveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.