10 Desember 2008 12:00
Margit F. Tveiten, sendiherra Noregs á Íslandi, kom nýverið í heimsókn á lögreglustöðina við Hverfisgötu og kynnti sér starfsemi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Með í för var eiginmaður hennar, Jon Dagfinnson Bech. Hann er sjálfur fyrrverandi sendiherra en um tíma gegndi Jon sömuleiðis embætti dómara í Noregi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er í góðu sambandi við lögregluyfirvöld í Noregi, einkum í Osló. Samskiptin eru margþætt, m.a. við Politihögskolan í Osló en þangað hefur LRH fengið að senda lögreglumenn og lögfræðinga til náms og kynninga. Á dögunum lauk Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, lögfræðingur yfirstjórnar, námi frá skólanum í rannsókn og saksókn flókinna fjármuna-og efnahagsbrota. Í skipulags- og rekstrarmálum hefur LRH verið í náinni samvinnu við lögreglustjóraembættið í Osló í rösklega eitt ár. Einn tilgangur þess er að skilgreina verkefni og árangursmælingar og að bæta kostnaðarviðmið í löggæslu á öllum sviðum. Jafnframt að skapa möguleika á starfsmannaskiptum á milli embættanna. Þá hafa rannsóknarstofur lögreglu í Noregi um langt skeið unnið sérhæfðar rannsóknir fyrir tæknideild LRH, t.d. DNA-rannsóknir. Ennfremur hafa norskir sérfræðingar og fræðimenn á sviði lögfræði og lögreglumála haldið fyrirlestra fyrir starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, m.a. fyrir milligöngu norska sendiráðsins.
Jón H.B. Snorrason, Jon Dagfinnson Bech, Margit F. Tveiten og Stefán Eiríksson.