9 Maí 2016 10:43
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. – 7. maí.
Miðvikudaginn 4. maí kl. 18.56 féll hjólreiðamaður af hjólinu á Krýsuvíkurvegi u.þ.b. þrjá km sunnan Bláfjallavegar. Fimm hjólreiðamenn höfðu verið að hjóla í hóp norður veginn þegar framhjól eins þeirra rakst í afturhjól annars – og hann datt. Sá slasaði var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 5. maí. Kl. 10.07 fauk húsbifreið, sem var á leið vestur Vesturlandsveg við Kollafjörð, út af veginum og hvolfdi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.14 var bifreið ekið aftan á aðra á afrein Reykjanesbrautar við Breiðholtsbraut til suðurs. Ökumaður aftari bifreiðarinnar ók á brott af vettvangi, en var stöðvaður í akstri skömmu síðar. Hann er grunaður um ölvunarakstur, auk þess sem hann var ökuréttindalaus. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 6. maí kl. 14.37 féll hjólreiðamaður á göngustíg við Víðistaðaskóla að Suðurvangi er hann var truflaður af gangandi vegfaranda. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 7. maí kl. 14.14 var fimm bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut norðan Bústaðavegar á leið til suðurs. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar er grunaður um ölvunarakstur. Tveir ökumenn og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um hjólreiðafólk.