14 Nóvember 2008 12:00
Afbrotum í vesturbæ Reykjavíkur fækkaði árið 2007 í samanburði við árið á undan en þessi góða niðurstaða var kynnt á fundi á Aflagranda í gær. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóð fyrir fundinum og boðaði til sín lykilfólk í hverfinu en fundur sem þessi er haldinn árlega. Þegar rýnt er í tölfræðina má t.d. sjá að auðgunarbrotum fækkaði mikið á milli ára. Þau voru 251 árið 2007 en 350 árið 2006. Til auðgunarbrota teljast m.a. innbrot en þeim fækkaði úr 125 í 115 á umræddu tímabili. Sömuleiðis fækkaði tilkynningum um eignaspjöll úr 172 í 134. Engin breyting varð hinsvegar á fjölda ofbeldisbrota sem voru 39 bæði árin. Fíkniefnabrotum fjölgaði lítillega og sömuleiðis var aðeins meira um nytjastuld árið 2007 í samanburði við árið á undan. Stærstu tíðindin úr vesturbænum eru kannski þau sem snúa að umferðinni en í þeim efnum hefur orðið mikill viðsnúningur á þessu ári. Þannig fækkaði umferðaróhöppum þar sem slys hafa orðið á fólki um þriðjung. Fyrstu átta mánuði ársins voru 12 slys af þessu tagi skráð hjá lögreglu en á sama tímabili 2007 voru þau 18. Eftir sem áður er víða ekið of hratt í vesturbænum samkvæmt hraðamælingum lögreglu og því er verk að vinna í þeim efnum.
Rúmlega tuttugu manns sátu fundinn en á honum var einnig kynnt niðurstaða um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar. Vesturbæingar eru almennt ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila ágætu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í hverfinu en 87% voru á þeirri skoðun. Aftur á móti töldu 30% íbúanna að lögreglan væri ekki nógu aðgengileg þegar þeir þyrftu að fá upplýsingar, aðstoð eða fræðslu en um það var einnig spurt í þessari sömu könnun. Á fundinum var talsvert rætt um umferðarmál en fundarmenn höfðu m.a. áhyggjur af hraðakstri á Hringbraut og við skólana í hverfinu. Bílastæðamál komu einnig til umfjöllunar en töluvert er um stöðvunarbrot í hverfinu.
Vala Ingimarsdóttir og Marta Guðjónsdóttir.
Pétur Kristjánsson og Eggert Ól. Jónsson.
Trausti Jónsson, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Geir Jón Þórisson.