27 Nóvember 2008 12:00
Farið var yfir stöðu og þróun mála í Háaleiti og Laugardal á fundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt í Hæðargarði á þriðjudag. Í hverfunum búa samtals rúmlega 27 þúsund manns en eilítið fleiri eru í Háaleitishverfi en munurinn er ekki mikill. Á síðasta ári voru framin um sextíu ofbeldisbrot í Laugardalshverfi en þau voru 44 árið á undan. Í Háaleiti má sjá mjög svipaðar tölur í þessum málaflokki á sama tímabili en þar er líka um fjölgun að ræða á milli ára. Þegar kemur að fíkniefnabrotum hefur þeim fjölgað allnokkuð í Háaleiti en hinsvegar fækkað verulega í Laugardal. Á þessu kunna að vera ýmsar skýringar og m.a. tengdar skemmtanahaldi. Litlar breytingar er að sjá á fjölda auðgunarbrota í báðum hverfunum á árunum 2006 og 2007. Sama gildir um eignaspjöll en slíkum tilkynningum fækkar þó í Laugardal á milli ára. Í Háaleiti og Laugardal dregur mjög úr umferðarslysum en slíkt má raunar segja um höfuðborgarsvæðið allt.
Nálægt þrjátíu manns sátu fundinn en á honum var einnig kynnt niðurstaða um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar. Íbúar í Háaleiti og Laugardal eru almennt ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila ágætu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í hverfunum en 90% voru á þeirri skoðun. Aftur á móti var rúmlega þriðjungur íbúanna á þeirri skoðun að lögreglan væri ekki nógu aðgengileg þegar þeir þyrftu að fá upplýsingar, aðstoð eða fræðslu en um það var einnig spurt í þessari sömu könnun. Á fundinum var mikið rætt um umferðarmál en fundarmenn höfðu m.a. áhyggjur af hraðakstri á Háaleitisbraut. Nýjustu hraðamælingar lögreglu sýna hinsvegar að þar hefur ástandið batnað til muna og var frá því greint sérstaklega.
Jón Helgi Þórarinsson og Þórdís Guðmundsdóttir.
Ásdís Haraldsdóttir og Eiður H. Eiðsson.
Aðalbjörg Traustadóttir og Helga Hallgrímsdóttir.