18 Apríl 2016 14:49
Í gær spilltist færð á fjallvegum á Vestfjörðum. Nokkrir vegfarendur festu bíla sína í snjó og þurftu björgunarsveitir að koma til aðstoðar. Vegum var lokað en allir helstu fjallvegirnir hafa nú verið opnaðir á nýjan leik og veður gott.
Fjórir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Einn þeirra var í akstri í Bolungarvíkurgöngum, var mældur á 99 km hraða. Aðrir ökumenn voru mældir á þjóðveginum í Strandasýslu og í Reykhólahreppi.
Töluvert tjón hlaust af akstri á vegrið í Seyðisfirði aðfaranótt 14. apríl sl. eða snemma morguns þann dag. Þeir sem kunna að búa yfir vitneskju um þetta atvik eru hvattir til að hafa samband við lögregluna í síma 444 0400.
Tilkynnt var um eitt annað umferðaróhapp í vikunni en um var að ræða tjón á bifreið sem stóð mannlaus í bifreiðastæði við líkamsræktarstöðina Studio Dan á Ísafirði. Atvikið mun hafa gerst á tímabilinu frá kl.06:00 til 07:30 þann 14. apríl sl. Bifreiðin sem skemmdist er blá Volswagen Golf. Þeir sem hafa vitneskju um atvikið eru hvattir til að hafa samand við lögregluna á Vestfjörðum í ofangreint símanúmer.