27 Nóvember 2008 12:00
Sem fyrr eru Seltirningar í góðum málum þegar rýnt er í afbrotatölfræði. Segja má að bæjarbúar séu almennt mjög löghlýðnir og þá er öryggistilfinning þeirra einkar góð. Þetta var meðal þess sem fram kom á fundi sem fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu áttu með forsvarsmönnum Seltjarnarnesbæjar í gær. Þar kom t.d. fram að auðgunarbrotum fækkaði á síðasta ári í samanburði við árið á undan. Í því samhengi má nefna að innbrotum á Seltjarnarnesi fækkaði á umræddu tímabili. Fíkniefnabrot eru jafnmörg á milli ára og tilkynningar um eignaspjöll standa nánast í stað frá 2006 til 2007. Ofbeldisbrotum fjölgar lítillega en um mjög lágar tölur er að ræða. Lögreglan og bæjaryfirvöld eru sammála um að ástandið á Seltjarnarnesi sé afar gott en einn fundarmanna líkti sveitarfélaginu við fyrirmyndarsamfélag í því sambandi. Það eru orð sem hægt er að taka undir. Umferðarmál í sveitarfélaginu eru sömuleiðis á réttri leið en umferðarslysum hefur fækkað á Seltjarnarnesi undanfarin ár.
Á fundinum var einnig kynnt niðurstaða um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar. Fram kom að Seltirningar eru almennt ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í sveitarfélaginu. Seltirningar telja sig jafnframt mjög örugga þegar þeir eru á ferð í sínu byggðarlagi eftir að myrkur er skollið á en 95% sögðu svo vera. Að lokum komu fulltrúar bæjarins á framfæri þakklæti til lögreglunnar fyrir vel unnin störf og var einkar ánægjulegt að ljúka fundinum á þeim nótum. Þess má geta að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fundar árlega með lykilfólki úr bæði sveitarfélögunum og eins úr hverfum borgarinnar þar sem farið er yfir stöðu og þróun mála á hverjum stað. Fundurinn á Seltjarnarnesi var sá síðasti í röðinni að þessu sinni en þráðurinn verður tekinn upp aftur að ári.
Ólafur Melsteð og Lárus B. Lárusson.
Eggert Ó. Jónsson og Jónmundur Guðmarsson.
Hörður Jóhannesson og Hrafnhildur Sigurðardóttir.