23 Október 2008 12:00
Ýmsar forvitnilegar niðurstöður voru kynntar á fundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti með fulltrúum Hafnarfjarðarbæjar í gær. Um var að ræða árlegan fund þar sem farið er yfir stöðu mála og þróun þeirra í sveitarfélaginu. Sömuleiðis var kynnt niðurstaða um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar. Fram kom að Hafnfirðingar eru almennt ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í bænum. Hafnfirðingar telja sig jafnframt mjög örugga þegar þeir eru á ferð í sínu byggðarlagi eftir að myrkur er skollið á. Þeir upplifa hinsvegar aðra tilfinningu þegar þeir eru staddir í höfuðborginni við svipaðar aðstæður um helgar. Þá eru þeir ekki eins öruggir með sig af einhverjum ástæðum.
Fundurinn, sem var haldinn í gamla bókasafnshúsinu í Mjósundi, var hinn líflegasti en hann sóttu rúmlega tuttugu manns. Margt bar á góma og má nefna forvarnir, foreldrarölt og nágrannavörslu. Einnig var rætt um viðbragðstíma lögreglu og þjónustu hennar almennt. Nokkur umræða skapaðist um veggjakort og sitt sýndist hverjum en í Hafnarfirði hefur verið farin nokkuð önnur leið í þeim efnum. Eitt helsta áhyggjuefni fundarmanna sneri að eignaspjöllum en þeim fjölgaði nokkuð í fyrra í samanburði við árin á undan. Af góðum fréttum má nefna að auðgunarbrotum fækkaði á sama tímabili.
Jóhannes Ármannsson, Geir Bjarnason og Snorri Örn Árnason.
Helgi Gunnarsson, Helgi Gíslason og Sævar Örn Guðmundsson.
Kristján V. Þórarinsson og Sigríður E. Ragnarsdóttir.