24 Október 2008 12:00
Í Garðabæ er almennt gott ástand þegar löggæslumál eru annars vegar. Ofbeldisbrot eru þar fátíð og fækkaði þeim til muna árið 2007 í samanburði við árin á undan. Einnig fækkaði auðgunarbrotum í bænum umtalsvert á sama tímabili og eru það að sjálfsögðu einnig góðar fréttir. Heilt yfir er staða mála í sveitarfélaginu mjög góð og mega íbúarnir vel við una. Garðabær stendur sömuleiðis mjög vel í samanburði við önnur sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu þegar rýnt er í tölfræðina. Frá þessu var skýrt á fundi sem haldinn var í Garðabergi í gær en hann sátu fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ýmsir forsvarsmenn úr stjórnsýslunni í Garðabæ.
Á fundinum var jafnframt kynnt niðurstaða um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar. Tæplega 80% Garðbæinga eru almennt ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í bænum. Rúmlega 20% telja hinsvegar að lögreglan skili ekki nógu góðu starfi í þeim efnum og vekur sú niðurstaða nokkra athygli. Um 40% Garðbæinga segja ennfremur að lögreglan sé ekki nógu aðgengileg þegar þeir þurfi að fá upplýsingar, aðstoð eða fræðslu. Um þessi viðhorf var talsvert rætt á fundinum og voru menn sammála um að gera þyrfti betur í að koma upplýsingum á framfæri til íbúa um hina raunverulega stöðu mála í Garðabæ, sem er raunar mjög góð eins og áður hefur komið fram. Í sömu könnun kom einnig fram að Garðbæingar telja sig mjög eða frekar örugga þegar þeir eru á ferð í sínu byggðarlagi eftir að myrkur er skollið á en 94% töldu svo vera.
Þröstur Guðmundsson, Sturla Þorsteinsson og Egill Bjarnason.
Hermann Þráinsson og Sigurveig Sæmundsdóttir.
Gunnar Richardson og Valgarður Valgarðsson.