29 Febrúar 2016 15:50
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í liðinni viku, án þess þó að alvarleg mál hafi komið upp. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum en eitthvað var þó um að lögreglan þurfti að aðstoða fólk sökum ölvunarástands þess.
Ein eignaspjöll voru tilkynnt til lögreglu í vikunni en um var að ræða skemmdir á bifreið sem stóð við Brimhólabraut 6. Skemmdir eru á toppi bifreiðarinnar og er talið að gengið hafi verið á toppi hennar. Ekki er vitað hver þarna er að verki og eru þeir sem telja sig vita hver þarna var á ferð vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.
Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur og mun mál hans fara hefðbundna leið í kerfinu.
Af öðrum umferðarlagabrotum ber helst að nefna að einn ökumaður fékk kæru vegna stöðvunarskyldubrots og þá fengu sjö ökumenn sekt vegna ólöglegrar lagningar ökutækja.
Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni sem leið en í öðru tilvikinu var um brot á stöðvunarskyldu að ræða sem olli árekstri en í hinu tilvikinu var um að ræða óhapp vegna ófærðar. Hafði ökumaður annarrar bifreiðarinnar missti stjórn á akstrinum með þeim afleiðingum að bifreiðin fór yfir á öfugan vegarhelming. Eftir áreksturinn kvartaði annar ökumanna yfir eymslum í hálsi.
Lögreglan vill minna ökumenn á að samkvæmt úrskurði Samgöngustofu þá eigi að vera kveikt á aðalljósum bifreiða í akstri. Ekki er nóg að kveikt sé á svokölluðum dagljósabúnaði.