25 Febrúar 2016 21:30
Rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tveimur alvarlegum tilvikum, sem beinast gegn konu í húsi í Móabarði í Hafnarfirði, miðar lítt áfram, en lögreglan hefur fáar vísbendingar að styðjast við. Fyrra tilvikið átti sér stað mánudagsmorguninn 15. febrúar um kl. 8, en í kjölfarið sendi lögreglan út svohljóðandi lýsingu á gerandanum: Fölleitur maður um 180 sm á hæð, dökklæddur og með svarta húfu og svarta hanska. Talinn vera á aldrinum 35 – 45 ára. Seinna tilvikið átti sér stað sunnudagskvöldið 21. febrúar um kl. 20. Í bæði skiptin, með hjálp fjölmiðla og samfélagsmiðla, var óskað eftir upplýsingum um mannaferðir og/eða annað sem gæti varpað ljósi á málið. Fjölmargar ábendingar hafa borist, en þær hafa samt ekki leitt til handtöku né að einhver liggi undir grun.
Jafnframt hefur verið rætt við nágranna konunnar, sem og fjölmarga íbúa í hverfinu, en það hefur reynst árangurslaust fram til þessa. Rannsóknin er samt áfram í fullum gangi enda málið mjög alvarlegt og meðhöndlað sem algjört forgangsmál hjá embættinu. Lögreglan veit af áhyggjum íbúa, en biður þá að halda ró sinni og sýna skynsemi við þessar aðstæður. Konunni, sem fyrir þessu varð, og fjölskyldu hennar hefur verið komið fyrir á öruggum stað. Konan er ekki alvarlega slösuð.
Að síðustu minnum við á að þeir sem geta veitt upplýsingar um málið, þ.e. manninn og ferðir hans, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.