4 Júní 2008 12:00
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og tollstjórinn í Reykjavík hafa skrifað undir samkomulag um aukið samstarf og samvinnu á sviði fíkniefnamála. Embættin munu m.a. hafa samvinnu um rekstur og þjónustu fíkniefnaleitarhunda og samvinnu við rannsóknir á innflutningi, sölu og dreifingu fíkniefna og greiningarvinnu á því sviði.
Tollstjórinn í Reykjavík ber ábyrgð á rekstri, þjálfun og öllu öðru utanumhaldi um hundateymi sem er til taks fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu þegar á þarf að halda. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu mun greiða hluta af rekstrarkostnaði við rekstur þess. Samvinna embættanna við rannsóknir og greiningarvinnu á sviði fíkniefnamála felst m.a. í gagnkvæmum aðgangi starfsmanna embættanna að starfsaðstöðu og aðstoð starfsmanna hvors embættis um sig. Í samkomulaginu felst einnig að embættin munu sameiginlega skipuleggja fræðslu og kynningar fyrir starfsmenn embættanna og efla á aðra lund samvinnu þeirra og samstarf.
Að undanförnu hefur góður árangur náðst í aðgerðum tolls og lögreglu gegn fíkniefnainnflutningi og sölu fíkniefna. Meginmarkmið hins nýja samkomulags er að efla enn frekar góða samvinnu og samstarf embættanna til að unnt sé að ná enn betri árangri á þessu sviði.
Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Snorri Olsen tollstjóri.